Blaðfallegt stofuplanta sem getur orðið talsvert fyrirferðamikil þar sem henni líður vel. Þolir ágætlega þurrk og sé plantan vökvuð of mikið verða böðin gul og falla af.

Greinar benjamínfíkusar eru skemmtilega hangandi og blaðmiklar við góðar aðstæður. Blöðin 6 til 13 sentímetrar að lengd og egg- eða sporöskjulaga og oddmjó. Börkurinn ljósbrúnn að lit. Ung blöð er ljósgræn en dökkna eða verða
yrjótt með aldrinum.

Dafnar best á björtum stað en ekki í beinni sól en aftur á móti geta blöðplöntunar dottið af fá hún ekki næga birtu. Kjörhiti hennar er frá 16° á Celsíus og upp í 30°. Hefðbundinn pottamold hentar benjamínfíkus vel og best er að
vökva plöntuna sparlega með volgu vatni og áburðarlaus annað stagið á sumrin en gæta skal þess að plantan ofþorni ekki. Gott er að umpotta benjamínfíkus á tveggja ára fresti og flytja í stærri pott á samræmi við rótarvöxtinn.

Benjamínfíkus er íhaldssöm planta sem ekki vill að hún sé færð mikil úr stað. Hún þolir ekki heldur dragsúg og er viðkvæm fyrir kulda. Getur verið fýlugjörn og fellt lauf án sýnilegra ástæðna en jafnar sig aftur sé dekstrað er svolítið við
hana.

Benjamínfíkus, Ficus benjamina, er uppruninn í Asíu og Ástralíu en hefur komið
sér vel fyrir víða í Vestur Indíum og Flórída og Arisóna í Bandaríkjunum Norður-Ameríku. Auk þess sem plantan er opinbert tákn Bankok í Tælandi.

Í ræktun er nokkur afbrigði af benjamínfíkus sem eru með mismunandi litum blöðum en aðallega dökkgrænum og ljósyrjóttum.

Í náttúrunni vaxa ungar plöntur upp með stofnum annarra trjáa og nota þá sér til stuðnings til að ná sem fyrst upp í sólarljósið. Plantan getur náð allt að 30 metra hæð í náttúrunni og að lokum kyrkir hún stoðtréð og það drepst. Yfirleitt mun lægri í ræktun innandyra.

Planta er sögð vera góð loftsía og hreinsa loftið af eiturefnum og jafnvel illum öndum.

- Vilmundur Hansen.