Flísar á vegg
Hér eru leiðbeiningar sem auðvelda þér að flísaleggja á vegg
Flísalím hefur þá eiginleika að festast við nánast hvað sem er. Flöturinn sem á að flísaleggja þarf að vera hreinn og þurr. Eins og með flesta aðra hluti þarf að gera sérstakar ráðstafanir í mjög blautu umhverfi svo sem á baðherbergjum og í sturtuklefum. Upplýsingar um efni fáið þið hjá sölumönnum.
Veggflísar festast vel í límið og detta ekki niður.
Hreinsið vegginn af öllum óhreinindum, lausri málningu og veggfóðri. Rífið upp glansáferð á málningu með sandpappír og gerið við smásprungur og göt ef einhver eru. Grunnið síðan vegginn með viðeigandi grunni.
Ef setja á flísar fyrir ofan baðkar, gerið ráð fyrir ca. 5 mm, eða sama bili og er á fúgunum, fyrir ofan baðkarsbrúnina. Setjið síðan sílikonkítti í bilið. Sílikonið er mjúkt og leyfir smá hreyfingu án þess að það brotni.
Veggir húsa eru sjaldnast alveg hornréttir. Því skal ekki byrja flísalögn á vegg í horni nema það sé búið að reikna út nákvæmlega hvernig flísarnar lenda.
Fylgið þessum skrefum:
1. Finnið út miðju veggsins og merkið hvar miðjuflísin á að koma til þess að fá jafnan afskurð til beggja hliða. Það er í lagi að byrja í horni ef búið er að reikna út hvernig flísarnar lenda.
2. Merkið fyrir skáp eða einhverju slíku sem á að fara á vegginn.
3. Ef þið eruð að flísalegga baðherbergi, mælið þá eina flísahæð plús fúgubreidd fyrir ofan baðkarsbrúnina. Ef flísalagt er upp í loft þarf að athuga hvernig flísalögnin þar endar og hliðra til ef afskurður verður of mjór og skera þá einnig af flísum að neðan. Ef þetta er bara veggur mælið þá eina flís og fúgubreidd fyrir ofan gólf. Mikilvægt er að kanna hvort skera þurfi af flísunum í öðrum hvorum enda vegna halla á gólfi. Sama á við þegar verið er að flísaleggja í eldhúsi milli eldhúsbekks og efri skápa. Merkið með blýanti hvar þessi röð flísa kemur.
4. Neglið afréttingarlista undir línuna, þannig að fyrsta flísaröðin komi til með að liggja á honum. Listinn tryggir að flísarnar verði örugglega láréttar og að þær sígi ekki niður undan eigin þunga á meðan límið er að þorna. Sumir mæla með því að setja einnig afréttingarlista upp vegginn til að tryggja að sú lína verði hornrétt á hina.
5. Þá er hægt að byrja að leggja flísarnar lárétt. Berið límið á vegginn með þar til gerðum tenntum spaða. Rendurnar á milli límsins eiga að vera því sem næst auðar.
6. Leggið heila rönd lárétt og setjið littla krossa á milli. Ef við notum litla plastkrossa getum við skilið þá eftir ef þeir fara á kaf, því þeir hyljast með fúgunni seinna. Þrýstið flísunum í límið og gætið þess að þær renni ekki til. Þurrkið lím sem vellur upp á milli flísanna af með rakri tusku. Haldið svo áfram á sömu braut og leggið flísarnar lárétt og upp. Þegar flísarnar eru örugglega farnar að taka sig í líminu má fjarlægja afréttingarlistann og leggja flísaröðina þar sem listinn var.
7. Leggið nú flísarnar niðri við gólf. Haldið svo áfram upp vegginn. Ef skera þarf af flísunum þarf að mæla vandlega hve mikið þarf að skera af þannig að hornfúgan verði jafnstór hinum. Hve mikið þarf að skera er hægt að mæla með málbandi og gætið þess þá að mæla neðst og efst frá brún flísarinnar sem er komin á vegginn að horni, til að ganga úr skugga um að skurðurinn sé jafn. Merkið með merkiblýanti (eða tússpenna) á flísina þar sem á að skera hana.
8. Einnig má leggja flísina sem á að skera, nákvæmlega ofan á síðustu heilu flísina í röðinni. Setjið þriðju flísina þar ofan á og ýtið henni þétt upp að veggnum. Merkið með merkiblýanti (eða tússpenna) á flísina þar sem á að skera hana. Þegar búið er að skera flísina, berið hana við áður en hún er límd niður, því það getur þurft að laga hana til þannig að fúgan verði jöfn. Ekki skera allar flísarnar upp vegginn eftir sama máli, því bilið getur mjókkað eða breikkað eftir því sem ofar kemur. Mælið því hverja flís fyrir sig.
9. Notið mjórri enda límspaðans til að bera lím á flísina sjálfa því það er betra en að reyna að bera lím í þröngt bilið á veggnum. Setjið flísina á sinn stað og þrýstið henni inn þannig að hún falli vel að þeim flísum sem fyrir eru.
Hvaða aðferð er best?
Margar aðferðir eru til við að leggja flísar, hvort sem er á gólf eða vegg, svo sitt sýnist hverjum. Aðalatriðið er að mæla vegginn eða gólfið rétt í byrjun svo ekki verði skekkja í lokin. Eins þurfa fúgurnar að standast á svo ekki komi misræmi í mynstrið. Reiknið út stærð flatarins sem á að flísaleggja og stærð flísanna plús fúgur, til þess að komi ekki hálf flís hér og heil þar.
Að skera í kringum rör eða innstungur
Að skera í kringum rör
1. Stundum þarf að skera úr flísum í kringum rör sem standa út úr vegg sem á að flísaleggja. Þegar flísalögnin er komin svo langt að næsta flís lendir á rörinu, þá takið þið flís og leggið ofan á röðina sem er komin, en til hliðar við rörið. Merkið með merkiblýanti (eða tússpenna) hvar efri og neðri brún rörsins lenda á flísinni.
2. Rennið síðan flísinni upp að rörinu að neðan og merkið aftur hvar hægri og vinstri brún rörsins lenda á flísinni. Dragið línur með vinkli yfir flísina og þá á að myndast ferningur þar sem rörið lendir á flísinni. Dragið hring innan í ferninginn (best er að hafa rör af sama sverleika til að draga í kringum). Því næst þarf að saga flísina í tvennt þannig að skurðurinn komi nákvæmlega í miðjan hringinn. Sumum finnst þægilegra að gera mát úr pappír eða pappa og máta það á staðnum áður en merkt er inn á flísina og hún söguð til.
3. Hægt er að nota sérstaka flísasög eða stingsög með réttu blaði til að saga flísar. Fyrst er flísin söguð í tvennt og síðan hálfhringurinn sem fellur að rörinu og hann fjarlægður.
4. Mátið flísarhelmingana á staðnum og athugið hvort þeir falli ekki vel saman og hvort nægilega hafi verið tekið úr fyrir rörinu. Þegar gengið hefur verið úr skugga um þetta má bera lím á flísarhelmingana og setja þá á sinn stað. Ef verkið hefur heppnast sem skyldi á skurðarlínan í flísinni að vera nánast ósýnileg en ójöfnur í kringum rörið hverfa þegar fúgað verður.
Svipaða aðferð er hægt að nota þegar taka þarf úr fyrir innstungum eða rofum. Þá þarf oftast ekki að skera flísarnar í tvennt heldur að saga horn eða boga inn í hverja flís fyrir sig.
Fúgur — hvernig fer ég að?
Þegar búið er að flísaleggja þarf límið að fá að þorna áður en fúgað er. Hve lengi ráðlagt er að bíða frá flísalögn að fúgun má sjá í leiðbeiningum frá framleiðanda, eða fá upplýsingar um hjá sölumönnum.
1. Blandið nú vatni og fúgudufti saman þannig að úr verði þykkur grautur. Berið fúguna á með gúmmíspaða. Notið svamp til þess að nudda fúgunni niður á milli flísanna og strjúkið yfir flísarnar. Til þess að móta fúguna í lokin, notið fingurinn til að slétta fúguröndina. Notið þá Latex eða Nitril hanska. Kítta skal allar kverkar þar sem meiri hætta er á að vatn komist að, svo sem baðkarsbrún, vask og borðbrúnir.
2. Látið fúgurnar harðna í ákveðinn tíma. Sjá nánar leiðbeiningar á umbúðum eða fáið upplýsingar hjá sölumönnum.
3. Þrífið flísarnar með þar til gerðum vökva eftir ákveðinn tíma. Sjá nánar leiðbeiningar á umbúðum eða fáið upplýsingar hjá sölumönnum.
Verkfæri sem þú þarft
- Málband
- Tenntur límspaði
- Svampur
- Tuska
- Merkiblýantur fyrir flísar eða tússpenni
- Flísaskeri
- Flísasög
- Flísaþjöl
- Vinkill
- Klaufhamar
- Naglar
- Afréttingarlisti
- Plastfata eða ílát til að hræra upp fúgu
Efni sem þarf við flísalögn
- Flísar
- Lím
- Millibilsklossar
- Hreinsiefni fyrir lím
- Fúguefni