Grassáning
Leiðbeiningar um grassáningu
Sáning grasfræs í einkagörðum hefur færst í vöxt á Íslandi enda hefur framboð hentugra grastegunda aukist verulega. Fáanlegar eru fræblöndur sem henta jafnt til nýsáningar sem og til viðgerða, t.d. eftir mosatætingu grasflatar.
Tilgangi grassáninga á flatir má skipta í þrjá flokka:
1. Nýsáning, þar sem fræi er sáð til að loka yfirborði, t.d. í lóðaframkvæmdum. Nýsáning kemur gjarnan í stað hefðbundinnar þökulagningar.
2. Viðgerðarsáning, t.d. í svæði þar sem skemmdir hafa orðið eða rof myndast í yfirborð.
3. Yfirsáning, til endurnýjunar og viðhalds á flötum. Gras sem slegið er reglulega myndar almennt ekki mikið fræ til endurnýjunar.
Besti tími til nýsáninga er að vori eða seint að hausti. Gott er að framkvæma viðgerðarsáningu eða yfirsá samhliða fyrstu áburðargjöf ársins, t.d. um miðjan maí.
Nýsáning
Áður en grasfræi er sáð er nauðsynlegt að meta undirlagið (vaxtarlagið) og hvaða aðgerða er þörf til að grasið þrífist sem best. Við mat á jarðvegi skal tekið tillit til hvort jarðvegur sé þjappaður, loftlaus eða blautur. Við slíkar aðstæður vill mosi ná undirtökum og grasið verður viðkvæmt fyrir sliti. Því er mikilvægt að losa um þjappaðan jarðveg, t.d. með jarðvegstætara eða gaffli. Einnig er grýttur jarðvegur óhentugur, ekki síst þegar slá þarf grasið. Æskilegt er að fjarlægja allt grjót úr yfirborði sem er yfir 10 mm að stærð. Vaxtarlagið, sem er efstu 10-30 cm yfirborðs, skiptir miklu máli. Best er að vaxtarlagið samanstandi af sendnum jarðvegi blönduðum með næringarríkri mold, t.d. 60% milligrófur sandur (0,25-2 mm) og 40% næringarrík mold. Þegar vaxtarlaginu er dreift og jafnað er gott er að setja út hæla og strengja snúrur á milli til að afmarka útlínur og jafna hæðir. Gæta skal þess að lagþykkt sé sem jöfnust yfir allan flötinn, því annars vill verða misvöxtur í grasinu. Fjarlægja skal allt rótarillgresi og mylja moldarköggla. Fyrir sáningu er gott að gefa lífrænan áburð, t.d. þörungamjöl eða hænsnaskít (sjá nánar um æskilegt magn á umbúðum). Einnig má nota tilbúinn áburð, t.d. Blákorn (2-3 kg/100 m2). Best er að dreifa áburðinum vel yfir vaxtarlagið og vinna hann niður í jarðveginn með hrífu eða jarðvegstætara.
Hægt er að fá ýmsar tilbúnar fræblöndur sem eru samsettar eftir eiginleikum viðkomandi tegundar til að þola ákveðin vaxtarskilyrði, t.d. sláttuhæð og álag. Mikilvægt er að fræblanda sé valin í samræmi við áætlaða notkun og tilgang. Til dæmis borgar sig ekki að sá flatarblöndu fyrir golfvelli í venjulega grasflöt, þar sem áætluð sláttuhæð er 3-7 mm og sláttutíðni 5-7 skipti í viku. Fræblöndur á venjulegar grasflatir innihalda gjarnan 3-4 grastegundir í mismunandi hlutföllum, t.d. 50% Vallarsveifgras, 40% Túnvingull og 10% fjölært Rýgresi.
Mikilvægt er að hræra vel í pokanum fyrir dreifingu því stærðarmunur fræsins getur valdið ójafnri dreifingu í pokanum. Best er að fylgja leiðbeiningum framleiðanda um fræmagn, sem eiga að koma fram á umbúðum fræblöndunnar. Algengt er að nota þurfi 15-40 g/m2 = 1,5-4 kg/100 m2.
Mikilvægt er að fræið sé ekki gamalt því við það dregur verulega úr spírunarhæfni. Á umbúðum ætti að koma fram síðasti söludagur fræsins.
Auðvelt er að handdreifa grasfræi. Þegar rétt fræmagn hefur verið reiknað út er gengið í beinum línum enda á milli og dreift með jafnri hreyfingu yfir jarðveg.
Þegar fræinu hefur verið dreift er mikilvægt að raka létt yfir svæðið þannig að fræin grafist lítið eitt niður í jarðveginn. Athugið að sáningardýpt getur verið breytileg eftir fræi en er að öllu jöfnu u.þ.b. 2-10 mm, upplýsingar um æskilega dýpt ættu að koma fram á umbúðum fræsins.
Best er að framkvæma grassáningu í þurru veðri því annars er hætt við að fræin festist við skófatnað og verkfæri og dreifist illa.
Þegar sáningu og rakstri er lokið þarf að vökva svæðið vel og halda því röku þar til fræið hefur spírað og rótfest sig. Í þurru veðri er nauðsynlegt að vökva einu sinni til tvisvar á dag til að tryggja að fræið þorni ekki. Nota skal úðara því kröftug vatnsbuna getur skolað fræinu burt. Gæta skal þess að ekki myndist pollar á yfirborði því þá flýtur fræið til.
Venjulega spírar grasfræ á 2-4 vikum en þó getur þurft að framkvæma yfirsáningu á svæði þar sem fræ hefur spírað illa.
Þegar fræið hefur spírað, venjulega á 2-4 vikum og náð 5-7 cm hæð, má byrja slátt. Passleg sláttuhæð fyrir venjulegar grasflatir er u.þ.b. 3-4 cm.
Gott er að gefa áburð 2-3 sinnum yfir vaxtartímabilið (sjá nánar í texta um áburðargjöf).
Viðgerðarsáning
Þegar gert er við svæði þar sem rof hefur myndast í yfirborð getur verið gott að blanda saman u.þ.b. einni fötu af jarðvegi (moldarblönduðum sandi) og góðri lúku af grasfræi. Blöndunni er svo dreift yfir viðgerðarsvæðið og þjappað létt yfir. Vökva þarf svæðið eins og lýst er hér að ofan. Eftir mosatætingu er grasfræi dreift yfir allt svæðið en lögð áhersla á ber svæði þar sem sár hafa myndast. Gott er að þrýsta fræinu niður í jarðveginn. Eftir sáningu er gott að dreifa milligrófum sandi yfir svæðið, u.þ.b. 2-3 mm á hvern fermetra. Einnig er gott að gefa áburð og kalk.
Yfirsáning
Yfirsáning er fyrst og fremst til að endurnýja og viðhalda grastegundum í flötinni. Gras sem slegið er reglulega í 2-3 cm hæð myndar ekki fræ til að viðhalda heilbrigði og þéttleika.
Best er að yfirsá samhliða fyrstu áburðargjöf, t.d. um miðjan maí.
Grassáningum má skipta í þrjá flokka:
Nýsáning, þar sem fræi er sáð til að loka yfirborði, t.d. í lóðaframkvæmdum. Nýsáning kemur gjarnan í stað hefðbundinnar þökulagningar.
Viðgerðarsáning, t.d. í svæði þar sem skemmdir hafa orðið eða rof myndast í yfirborð.
Yfirsáning, til endurnýjunar og viðhalds á flötum. Gras sem slegið er reglulega myndar almennt ekki mikið fræ til endurnýjunar.
Efni og verkfæri
- Grasfræ, t.d. ProMix fræblanda.
- Áburður, t.d. Blákorn, Graskorn, fiskimjöl eða annað.
- Malarhrífa til að jafna mold, raka saman mosa o.fl.
- Hrífa til að raka saman mosa og gras úr yfirborði.
- Jarðvegsskafa til að jafna jarðveg.
- Vatnsslöngur og úðarar til vökvunar.