Garðsláttuvélar
Viðhald garðsláttuvéla
Mismunandi er hvernig garðsláttuvélar vinna. Lesið vel leiðbeiningar um vélina og kynnið ykkur hvernig hún virkar áður en þið byrjið að nota hana.
Farið rækilega yfir vélina í upphafi sumars og framkvæmið reglulegt viðhald eftir því sem við á. Skoðið hnífinn vel og kannið hvort þurfi að brýna hann eða skerpa. Farið vel yfir öll atriði í hvert sinn sem vélin er notuð.
Áður en unnið er undir vélinni, takið kertaþráðinn af kertinu svo að það sé tryggt að hún geti ekki farið í gang þegar hnífnum er snúið. Skoðið kertið vel þegar vélin er tekin í notkun. Ef það er mjög sótugt þarf að hreinsa það vel áður en vélin er tekin í notkun. Ef það er sýnilega farið að slitna þarf að skipta um kerti til þess að vélin skili fullum afköstum.
Gangið úr skugga um að öryggisatriði á borð við sjálfvirkan ádrepara, sem fer á þegar handfangi er sleppt, séu í lagi þegar vélin er tekin í notkun.
Í myndbandinu hér að neðan er farið yfir hvað skal hafa í huga þegar bensínsláttuvél er tekin aftur í notkun eftir veturinn.
Gott að hafa í huga varðandi bensínsláttuvélar
Passið upp á að gras eða önnur óhreinindi komist ekki í bensíngeyminn þegar fyllt er á, því þá eykst hætta á bensínstíflu eða gangtruflunum.
Hnífur sem er farinn að slitna dregur verulega úr afköstum vélarinnar. Vel brýndur hnífur eykur afköstin og skilur eftir sig fallegri grasflöt.
Garðsláttuvél sem er með fjórgengisvél má ekki nota í miklum halla, því þá gæti mótorinn misst smurningu eða olían flætt um alla vélina. Bensínsláttuvél með fjórgengisvél er með séráfyllingu fyrir smurolíu mótorsins og notar óblandað bensín.
Bensínsláttuvél með tvígengisvél notar bensín með íblandaðri smurolíu.
Ef bensínsláttuvél er með tvígengismótor, gætið þess að blanda ekki of mikilli olíu í bensínið, því þá gengur vélin illa og kertið sótast fljótt. Farið nákvæmlega eftir leiðbeiningum framleiðandans varðandi hlutfall olíu í bensíni.
Öryggisatriði
Börn eiga ekki að vera nálægt sláttuvél í notkun. Þau ættu aldrei að ganga meðfram eða nálægt garðsláttuvél í notkun vegna þess að rusl og smásteinar geta skotist á miklum hraða frá vélinni þegar hún er í gangi.
Best er að börn séu höfð undir eftirliti þegar garðsláttuvélin er í gangi. Ekki leyfa börnunum að leika sér með eða nálægt garðsláttuvélinni.
Algengar spurningar
Hve oft á að slá?
Þegar grasið er byrjað að spretta fyrir alvöru er léttast að slá grasið að meðaltali einu sinni í viku. Ef hægt er á að forðast að slá þegar grasið er blautt.
Af hverju er grasflöt ójöfn eftir slátt?
Algengasta orsökin er sú að hnífurinn er hættur að bíta. Það þarf að brýna blaðið nokkrum sinnum yfir sumarið ef þú vilt vera viss um að það bíti vel. Hægt er að brýna það á hverfisteini, en einnig með því að strjúka yfir brúnina með fínni þjöl.